hBreski ökuþórinn Lewis Hamilton liggur enn undir feldi og íhugar hvort að hann gefi kost á sér á næsta tímabili í Formúlu 1.

Samkvæmt heimildum BBC er Hamilton að bíða eftir niðurstöðu úr rannsókn á framkvæmd lokakeppni síðasta árs þegar mistök urðu til þess að hann missti heimsmeistaratitilinn úr greipum sér á lokahringnum.

Samkvæmt sömu heimildum treystir Hamilton stjórnarformönnum Formúlu 1 ekki lengur til þess að gæta hlutleysis.

Í kjölfarið af lokakeppninni í vetur talaði Toto Wolff, liðsstjóri Formúlu 1 liðs Mercedes, um að það væri óvíst hvort að Hamilton myndi snúa aftur.

Tveir mánuðir eru í fyrsta kappakstur ársins og mánuður í fyrri æfingarhelgina af tveimur þetta árið.

Það er því beðið með eftirvæntingu eftir því hvort að Hamilton ætli sér að snúa aftur en Mercedes stendur með sjöfalda heimsmeistaranum.