Fasteignafélagið Reginn sendi Fréttablaðinu tilkynningu þar sem félagið segir gagnrýni Arnars og Rúnars um að gervigrasið í Egilshöll sé úr sér gengið sé ekki sönn.

Fréttablaðið fjallaði um í dag áhyggjur Rúnars Kristinssonar, þjálfara KR og Arnars Gunnlaugssonar, þjálfara Víkings af gervigrasinu í Egilshöll. Liðin leika í undanúrslitum Reykjavíkurmótsins síðar í dag.

Þar sagði Arnar Gunnlaugsson að hann myndi ekki tefla fram Sölva Geir Ottesen og Kára Árnasyni í kvöld til að fyrirbyggja meiðsl og Rúnar Kristinsson talaði um að tveir leikmenn KR hefðu meiðst á gervigrasinu nýlega.

Samkvæmt svarinu sem Fréttablaðinu barst í dag segir að gervigrasið standist allar kröfur FIFA og að viðhald sé reglulegt og gert eftir ýtrustu fyrirmælum framleiðanda.

Gervigrasið sé tæplega fjögurra ára gamalt og það sé því ekki rétt að það sé úr sér gengið þrátt fyrir mikla notkun.

Svarið má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Í kjölfar umræðu um að ástand og viðhald á gervigrasi í Egilshöll vill Reginn hf. koma eftirfarandi á framfæri.

Gervigrasið í Egilshöll er prófað og uppfyllir allar kröfur FIFA Quality staðalsins. Viðhald á gervigrasinu hefur verið reglulegt og eftir ýtrustu fyrirmælum framleiðanda og er því bæði sinnt af þjónustuaðila og starfsmönnum hússins.

Gervigrasið er tæplega fjögurra ára gamalt og er því fjarri að gervigrasið sé úr sér gengið, þrátt fyrir talsverða notkun.