Serbneska tennisstjarnan Novak Djokovic var undanþeginn bólusetningarskyldu sem skilyrði fyrir komu til Ástralíu, að því er kemur fram í gögnum sem lögfræðingar hans afhentu áströlskum dómstólum í dag. Ástæðan ku vera fyrra smit hans af Covid-19, en samkvæmt gögnunum hafði Djokovic fengið úthlutað skírteini með læknisundanþágu frá bólusetningarskyldu frá heilbrigðisfulltrúa ástralska tennissambandsins. Lögfræðingar Djokovics segja að skírteininu hafi fylgt vegabréfsáritun sem heimilaði honum för til Ástralíu og að í því hafi enginn fyrirvari hafi verið settur um bólusetningarskyldu.

Djokovic var nýlega settur í einangrun á sóttvarnahóteli eftir að hann lenti í Melbourne til þess að taka þátt í Opna ástralska meistaramótinu í tennis og Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hefur lýst því yfir að Djokovic, sem er óbólusettur, verði vísað úr landi ef hann stenst ekki kröfur sem gerðar eru til þess að koma megi til Ástralíu.

Djokovic hefur áfrýjað ákvörðun stjórnvalda um einangrunina og mál hans verður tekið til umfjöllunar við ástralskan dómstól á mánudaginn.