Reuters greinir frá því í dag að þýska knattspyrnudeildin fái heimild stjórnvalda til að hefja leik á ný eftir tíu daga.

Tæpir tveir mánuðir eru liðnir síðan deildarkeppnin í Þýskalandi var stöðvuð vegna kórónaveirunnar. Flest liðin eiga 11 leiki eftir en einhver eiga tólf leiki.

Bæjarar eru með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar en Dortmund, Leipzig, Borussia Mönchengladbach og Bayer Leverkusen eru ekki langt undan.

Yfirmenn þýska knattspyrnusambandsins höfðu vonast eftir því að hefja leik 9. maí en þýsk heilbrigðisyfirvöld höfnuðu þeirri beiðni.

Í gær bárust fréttir af tíu nýjum tilfellum af COVID-19 innan knattspyrnuhreyfingarinnar en þrátt fyrir það segir Reuters að Angela Merkel komi til með að gefa grænt ljós á að hefja knattspyrnuleiki á ný.

Það verði engir áhorfendur leyfðir í fyrstu leikjunum og þá verða sérstakar reglur í gildi til að reyna að koma í veg fyrir smit innan liða.