Ólafur Jóhannesson mun stýra meistaraflokksliði Stjörnunnar í karlaflokki á næsta ári ásamt Rúnari Páli Sigmundssyni samkvæmt heimildum 433.is.

Rúnar Páll stýrir liði Stjörnunnar sjöunda tímabilið í röð á næsta ári en er án aðstoðarmanns eftir að Fjalar Þorgeirsson lét af störfum hjá félaginu og Veigar Páll Gunnarsson ætlar að einblína á 2. flokk.

Ólafur er án starfs eftir að hafa verið sagt upp hjá Val eftir Íslandsmeistaramótið í ár en undir stjórn Ólafs varð Valur tvívegis Íslandsmeistari og tvívegis bikarmeistari á fimm árum.

Árangur Vals þótti ekki standa undir væntingum í ár sem leiddi til þess að Ólafi var sagt upp í lok tímabilsins. Heimir Guðjónsson tók við starfi Ólafs nokkrum dögum síðar.