Bandarískir fjölmiðlar fullyrða að Kyrie Irving, einn af bestu leikstjórnendum NBA-deildarinnar í körfubolta, sé opnari fyrir hugmyndinni að þiggja bóluefni gegn Covid-19 sem unnið er úr plöntum (e. plant-based).

Irving hefur til þessa neitað að þiggja bóluefni og hefur því misst af öllum leikjum Brooklyn Nets það sem af er tímabils.

Leikstjórnandinn leikur með Brooklyn sem er staðsett í New York í Bandaríkjunum. Í borginni er gerð krafa um bólusetningu til að fara á íþróttaviðburði, sama hvort að um ræði leikmenn eða áhorfendur.

Irving sem aðhyllist grænkeralífsstíl hefur haft orð á því að hann telji að það sé betra fyrir líkama sinn að afþakka bóluefni en sú afstaða gæti breyst á næstu mánuðum.

Unnið er að bóluefni sem unnið er úr plöntum og er vonast til þess að það verði tilbúið í byrjun næsta árs.

Fullyrða heimildarmenn sem þekkja til málefna Irving að leikstjórnandinn sé opnari fyrir hugmyndinni að þiggja plöntumiðað bóluefni..