Samkvæmt heimildum AP fundaði Gianni Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA með mörgum af formönnum knattspyrnusambanda Evrópu, UEFA í gær þar sem hann kynnti formlega áætlanir FIFA um að fjölga stórmótum.

Á sama tíma íhuga knattspyrnusambönd víðsvegar um Evrópu að segja sig úr Alþjóðaknattspyrnusambandinu samkvæmt heimildum AP.

Evrópska knattspyrnusambandið sem er mótfallið hugmyndunum hefur heyrt frá nokkrum knattspyrnusamböndum sem eru tilbúin að segja sig úr FIFA.

Það helst í hendur við tilkynningu sem norrænu knattspyrnusamböndin, þar á meðal Knattspyrnusamband Íslands, undirrituðu í síðustu viku.

Í yfirlýsingunni kom fram að norrænu knattspyrnusamböndin myndu íhuga að grípa til aðgerða ef hugmyndin um fjölgun stórmóta yrði samþykkt.

Það þarf ekki að fara langt aftur í tímann til að finna fordæmi um þjóðir sem kepptu þrátt fyrir að vera ekki með aðild innan FIFA.

Smáríkið Gíbraltar var samþykkt af evrópska knattspyrnusambandinu árið 2013 og tók þátt í undankeppni fyrir EM 2016 áður en knattspyrnusambandið gekk inn í Alþjóðaknattspyrnusambandið.

Undanfarna mánuði hefur FIFA unnið markvisst að hugmynd Arsene Wenger um að fjölga stórmótum. Með því yrði Heimsmeistaramótið, karla og kvenna, haldið á tveggja ára fresti og Evrópumótin þess á milli í stað fjögurra ára eins og þekkist í dag.

Hugmynd Wenger byggist um leið á því að fækka landsleikjahléum niður í tvö á ári og fullyrðir hann að þetta verði til þess að leikmenn fái aukna hvíld.

Spænskir fjölmiðlar fullyrtu í gærkvöld að búið væri að leggja lokahönd á áætlanir FIFA sem myndu taka gildi árið 2026.

Ef það reynist satt er FIFA með Heimsmeistaramót á dagskrá árið 2028 þegar Evrópumótið í knattspyrnu á að fara fram og Ólympíuleikarnir.

Alþjóðaólympíunefndin, IOC, hefur einnig lýst yfir óánægju sinni með áætlanir FIFA.

Í bókun stjórnar Alþjóðaólympíunefndarinnar lýsir stjórnin yfir áhyggjum að með fjölgun stórmóta sé líklegt að mót karlalandsliðana skyggi á mót kvennalandsliðana ásamt því að þetta auki álag á íþróttafólki sem sé undir gríðarlegu álagi fyrir.

Framkvæmdarráð FIFA (e. FIFA Council) fundar í dag þar sem hugmyndin um fjölgun stórmóta verður rædd. Aleksander Čeferin, forseti UEFA, verður viðstaddur en hann er um leið varaforseti FIFA.

Líklegt er að lokaákvörðun verði tekin um hugmynd Wenger og Infantino á ársþingi FIFA síðar á þessu ári.

Undanfarna mánuði hefur FIFA unnið markvisst að því að fá fyrrum leikmenn og minni knattspyrnusambönd til að lýsa yfir stuðningi sínum við hugmyndirnar um fjölgun stórmóta.

Máli sínu til rökstuðnings framkvæmdi FIFA á dögunum könnun sem sýndi fram á áhuga knattspyrnuaðdáenda á fjölgun stórmóta.

Í könnuninni sem 23 þúsund manns tóku þátt í, var naumur meirihluti fylgjandi því að fjölga stórmótum.

Hugmyndin fékk mesta fylgið í Afríku þar sem tæplega tveir þriðju lýstu yfir áhuga á að fjölga mótum, en minnsta fylgið í Evrópu þar sem meirihluti vildi halda stöðunni óbreyttri.