Rannsókn Alþjóðaknattspyrnusambandsins á uppruna Byron Castillo virðist hafa leitt í ljós að Castillo hafi falsað fæðingavottorð sitt og sé því ekki heimilt að leika fyrir Ekvador.

Þátttaka Castillo í undankeppni HM mun því kosta Ekvador sæti í lokakeppni HM og er líklegt að Síle komi í þeirra stað.

Samkvæmt spænska dagblaðinu Mundo Deportivo og ýmsum Suður-amerískum fjölmiðlum er FIFA búið að komast að niðurstöðu að Castillo sé ekki frá Ekvador..

Eftir að undankeppni HM var lokið í Suður-Ameríku lagði knattspyrnusamband Síle fram kvörtun um að Castillo væri í raun Kólumbíumaður og þremur árum eldri en vegabréf hans gæfi til kynna.

Knattspyrnusamband Síle sýndi meðal annars fram á fæðingavottorð Castillo frá Kólumbíu máli sínu til rökstuðnings.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem knattspyrnusamband Ekvadors er sakað um að stunda það að falsa fæðingavottorð til að gera efnilegum leikmönnum kleift að leika fyrir landslið Ekvadors síðar meir.

Ef Alþjóðaknattspyrnusambandið kemst að því að Castillo sé í raun frá Kólumbíu en ekki Ekvador yrði Ekvador dæmdur 0-3 ósigur í öllum leikjum liðsins sem Castillo kom við sögu í.