Ólafur Stefánsson sagði í vikunni að hann hefði ekki enn unnið úr tapinu við Ungverja frá 2012 á Ólympíuleikunum þegar íslenska landsliðið í handbolta tapaði nokkuð óvænt. Ólafur Kristjánsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Breiðablik, settist í settið í Íþróttavikunni með Benna Bó sem sýnd er á föstudögum á Hringbraut. Hann sat þar með Herði Snævari Jónssyni, íþróttastjóra Torgs og fóru yfir fréttir vikunnar, meðal annars þetta tap.

Benedikt spurði Ólaf hvort hann ætti einhvern svona leik - sem hann hugsaði reglulega til en Ólafur spilaði hér heima með FH og KR og AGF í Danmörku auk 14 landsleikja. Svarið var ekki lengi að koma. „Það er einn leikur sem situr í mér. Það var 1996 á Akranesi, ÍA KR. Hann situr í mér. Ég skil alveg nafna minn. Mér líður illa þegar ég sé eitthvað úr honum. Það er tap sem svíður og tímabil sem svíður hvernig það endaði. En maður lærði líka helling á því - heilan helling.“

Hinir í settinu hafa safnað bumbu frekar lengi og áttu engan merkilegan leik til að rifja upp.

Hægt er að horfa á allt innslagið hér að neðan.