Réttarhöldin í máli Ryan Giggs, fyrrum knattspyrnumanns Manchester United halda áfram og í gær hélt vitnisburður Kate Greville, fyrrum kærustu hans áfram en hún sakar Giggs um að hafa beitt sig bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi. Þá er Giggs einnig sakaður um að hafa ráðist á systur Kate, Emmu en Kate segist hafa verið þræll Giggs.

Verjandi Giggs, Chris Daw herjaði í gær á Kate í vitnastúkunni en því hefur verið haldið fram á mar sem fundust á líkama Kate á sínum tíma hafi myndast eftir „harkalegt kynlíf." Kate neitaði því staðfastlega í vitnastúkunni í gær.

Chris spurði hana út í ummæli sem hún lét falla þar sem hún sagðist hafa verið „þræll að sérhverri þörf hans (Giggs) og sérhverri kröfu"

Kate sagði það vera sína upplifun af tímanum með Giggs. „Ef Giggs sagði mér að gera eitthvað, þá gerði ég það. Hann lét mér líða eins og ég yrði að gera það sem hann bað um, annars yrðu afleiðingar.

Giggs varð á sínum tíma Englandsmeistari með Manchester United þrettán sinnum og Evrópumeistari í tvígang. Hann er sakaður um að hafa skallað Greville í nóvember árið 2020 sem og að hafa ráðist á yngri systur hennar, Emmu, sama dag.

The Athletic hefur tekið saman allar ásakanirnar á hendur Giggs og eru þær eftirfarandi auk meintrar árásar sem á að hafa átt sér stað í nóvember árið 2020:

  • Að hafa sent fyrrum kærustu skilaboð, og/eða blokkað hana þegar að hún var úti að skemmta sér með vinkonum sínum.
  • Hótaði að senda tölvupósta á vini hennar sem og samstarfsmenn um kynferðislegar athafnir þeirra og hegðun.
  • Hent henni (Greville) og eigum hennar út úr húsinu þegar að hún spurði Giggs út í samband hans við aðrar konur.
  • Á Stafford hótelinu í Lundúnum, hafi hann sparkað í bak hennar, hent henni út úr herberginu án klæða og í kjölfarið hent tösku hennar í hana eftir að Greville sakaði Giggs um að hafa reynt við aðrar konur.
  • Ítrekað sent óæskileg skilaboð og hringt óæskileg símtöl til hennar og vina hennar þegar að hún reyndi að slíta sambandi þeirra.
  • Mætti ítrekað óumbeðinn á heimili hennar, vinnustað sem og líkamsræktarstöð eftir að hún reyndi að binda enda á samband þeirra.

Giggs hefur neitað sök í öllum liðum en undanfarna mánuði hefur hann verið laus gegn tryggingu gegn ákveðnum skilyrðum. Hann hefur ekki mátt setja sig í samband við Kate Greville og Emmu né nálgast þær.