Jamal segir hins vegar að Grindavík hafi ætlað að nota aðra tylliástæðu til þess að losa sig undir samningi og ætlunin hjá forráðamönnum félagsins hafi verið að sleppa við að borga út það sem eftir var af samningi aðilanna. Þannig hafi leikmenn Grindavíkurliðsins verið settir í lyfjapróf í síðustu viku og því ranglega haldið fram að í sýni hans hafi fundist marijúana.

Sökum þess að Jamal hafi að þeirra sögn fallið á lyfjaprófinu yrði hann leystur undan samningi og honum gert að yfirgefa íbúð sem félagið hafði útvegað honum eins fljótt og auðið er. Þá var honum tjáð að hann þyrfti að koma sér heim á eigin kostnað og vegna samningsbrotsins myndi Grindavík ekki greiða út samning hans við félagið. Jamal segist aldrei hafa notað fíkniefni á ævi sinni og forráðamenn Grindavíkur hafi logið fíkniefnaneyslunni upp á hann til þess að spara kostnað. Ekki hafi verið mögulegt að segja upp samningnum án þess að greiða hann upp eftir miðjan desember síðastliðinn og til þess að komast hjá kostnaði hafi verið spunninn lygavefur.

„Ég hef farið í fjölmörg lyfjapróf á vegum alþjóðakörfuboltasambandsins (FIBA) í þeim löndum þar sem ég hef spilað. Þau próf hafa verið gerð á mun vandaðri hátt en þetta sem Grindavík framkvæmdi og þar hafa þvag- og blóðsýnið ávallt verið hrein. Ég hef aldrei notað fíkniefni á lífsleiðinni - þetta er því lygi sem hefur áhrif á mannorð mitt og möguleika til þess að starfa sem körfuboltamaður í framhaldinu,“ segir Jamal í samtali við Fréttablaðið.

„Þeir höfðu í hótunum við og sögðust ætla að siga lögreglunni á mig ef ég myndi ekki yfirgefa íbúðina undir eins. Ég er mjög sár og sé núna að það sem Terrell Vinson, félagi minn, varaði mig við á sínum tíma reyndist á rökum reist. Mér finnst að koma þurfi í veg fyrir að forráðamenn félagsins geti komið fram við leikmenn sína í framtíðinni,“ segir hann enn fremur. Vinson sagði farir sínar ekki sléttar af samskiptum sínum við forráðamenn Grindavíkur í viðtali við Morgunblaðið fyrir um það bil ári síðan. Vinson sagði að illa hefði verið komið fram við hann í kjölfar þess að hann meiddist.

Grindvíkingar vildu ekki tjá sig um lyfjaprófið

„Þeir samþykktu svo eftir samningaviðræður við umboðsmann minn að greiða mér hluta af þeirri upphæð sem þeir skulduðu mér. Þá var flugfarið heim greitt eftir mikið þref. Mér finnst sú staðreynd að þeir linuðust í afstöðu sinni eftir að hafa rætt við umboðsmann minn sýna að þeir hafi áttað sig á því að þeir geti ekki haldið lyginni um mig til streitu,“ segir leikmaðurinn sem er kominn til síns heima.

Ingibergur Þ Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, sagði að sagan um lyfjaprófið væri ekkert nema frábær saga þegar Fréttablaðið náði í skottið á honum. Þá sat hann ásamt öðrum stjórnarmönnum og beið eftir niðurstöðu lækna vegna meiðsla Jamals.

„Ég er bundinn trúnaði og hef ekkert leyfi að fara blaðra um það í fjölmiðlum en það verður rekið þvert ofan í ykkur ef þið skrifið einhverja vitleysu - það er alveg klárt. Það sem er satt er að hann er meiddur og í tveggja leikja banni og er af þeim sökum farinn heim til sín. Hann fékk bann fyrir brot gegn Tindastól og við höfum ekkert að gera við mann sem situr á bekknum og má ekki spila og er meiddur að auki,“ segir Ingibergur um málið.

Fréttablaðið fékk þó senda ljósmynd af þvagprufu Jamals og samskiptum þar sem því er haldið fram að hann hafi fallið á lyfjaprófi. Að lokum var svo sæst á það milli aðilanna að gefa það út opinberlega að meiðsli væru ástæða fyrir samningsslitunum en ekki fall á lyfjaprófi.