Atvik sem átti sér stað undir lok síðustu keppninnar í Abu Dhabi hefur skipt kappakstursáhugamönnum í tvennt. Eftir að Nicholas Latifi, ökumaður Williams, klessti bíl sinn innan brautar þurfti að kalla út öryggisbíl. Lengi vel leit út fyrir að keppnin myndi enda fyrir aftan öryggisbílinn en hann var kallaður inn fyrir lokahring keppninnar.

Fyrir það hafði hringuðum bílum fyrir aftan öryggisbílinn verið skipað að halda sig fyrir aftan öryggisbílinn þar sem að þeir voru staðsettir á milli Hamilton sem var í fyrsta sæti og Verstappen sem var í öðru sæti.

Keppnisstjórnendur ákváðu hins vegar að breyta ákvörðun sinni og leyfðu þeim bílum sem voru hring á eftir forystusauðunum að afhringa sig. Frá þeirri stundu varð ljóst að Hamilton ætti erfitt uppdráttar þar sem að Verstappen var á mun betri dekkjagangi. Svo fór að hann tók framúr Hamilton og tryggði sér sigur í stigakeppni ökumanna.

,,FIA braut sínar eigin reglur, það er svívirðing gagnvart íþróttinni. Engu að síður, þrátt fyrir að hafa verið beittur óréttlæti, var Hamilton auðmjúkur í ósigri," skrifar Nicolas Hamilton, bróðir Lewis í færslu á Instagram.

Nicolas segir viðbrögð föður síns, sem hefur stutt rækilega við bakið á Hamilton í gegnum tíðina, sem og viðbrögð Lewis sína hvaða menn þeir hafi að geyma. ,,Faðir minn, maðurinn sem ól okkur upp fór og óskaði Verstappen feðgunum til hamingju. Fólk getur sagt það sem það vill en viðhorf föður míns afsannar allar kenningar efasemdarmanna og sýnir svart á hvítu hverjir við erum."

,,Að sanna að fólk hafi rangt fyrir sér er í erfðamengi okkar, Lewis gerir þetta á hverjum einasta degi," skrifar Nicolas Hamilton, hálfbróðir Lewis Hamilton í færslu á Instagram.