Lord Coe, forseti Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, óttast að heilindi íþróttalífs kvenna sé í hættu eftir að Lia Thomas varð um helgina fyrsta trans konan til að vinna landsmeistaratitil í bandarísku háskólaíþróttalífi (e. US National College title) í 500 metra skriðsundi.

„Heilindi kvennaíþrótta eru að veði ef við tökum ekki rétta ákvörðun. Framtíð kvennaíþrótta er í hættu. Það er engin leið framhjá því að mæling á magni testósteróns skiptir öllu máli,“ sagði Coe í samtali við Times og hélt áfram:

„Ég man þegar dætur mínar gátu hlaupið hraðar en drengir í þeirra aldursflokki en þegar kynþroskaskeiðið hefst myndast forskot á milli kynjanna.“

Málefni Thomas hafa verið til umræðu í Bandaríkjunum en Thomas sem keppti áður fyrir hönd karlaliðs Penn Quakers gekkst undir kynleiðréttingarferli og meðfylgjandi hormónameðferð á síðasta ári.

Thomas hafði meðal annars betur gegn Ericu Sullivan sem var silfurverðlaunahafi á Ólympíuleikunum síðasta sumar.

Mótmælendur voru viðstaddir fyrir utan keppnishöllina um helgina, meðal annars frá samtökunum Bjargið kvennaíþróttum (e. Save Women's Sports) til að mótmæla þátttökurétt Liu.