Netflix þáttaröðin Drive to Survive, þar sem skyggnst er á bak við tjöldin í Formúlu 1, hefur varpað miklu kastljósi á íþróttina og dregið að henni algjörlega nýjan áhorfendahóp. Það eru þó ekki allir sáttir með þróunina og John Watson, fyrrum ökumaður í Formúlu 1, telur þátttaröðina hafa haft áhrif á ákvarðanatöku dómara og það hvernig síðasta keppni síðasta tímabils spilaðist.

John Watson, vann á sínnum Formúlu 1 ferli fimm kappakstra og hann segir að Drive to Survive hafi ýtt dómurum keppninnar og FIA yfir í að einblína á skemmtanagildi íþróttarinnar sem og breytt því hvernig tekist er á við vafaatriði sem kunna að koma upp í keppnum.

,,Sumir af þessum aðilum, meðal annars FIA og fulltrúar þess hafa orðið hluti af þessum þáttum, það eiga þeir ekki að vera, það er ekki þeirra hluverk. Þessir aðilar eiga að vera bakatil," sagði John Watson í viðtali við RacingNews365.

John Watson ók á sínum tíma í Formúlu 1
GettyImages

Þættirnir fengið mikið lof en einnig gagnrýni

John Watson er alls ekki fyrsti maðurinn til þess að gagnrýna þáttaröð Netflix um Formúlu 1

Þó svo að þættirnir Drive to Survive hafi orðið til þess að ferskir vindar blésu um Formúlu 1 og juku áhuga almennings á íþróttinni á ný, hafa einnig heyrst gagnrýnisraddir sem segja að þættirnir gefi ekki rétta mynd af því sem á sér stað yfir Formúlu 1 tímabil.

Þáttunum hefur meðal annars verið gefið að hafa búið til ríg á milli einstaklinga sem hafi beinlínis ekki verið til staðar. Dramatíkin í þáttunum sé skrúfuð upp til þess að gera þá meira aðlaðandi fyrir hinn óbreytta áhorfanda á kostnað raunveruleikans.

Hvað gerðist?

Sir Lewis Hamilton, ökumaður Mercedes og Max Verstappen, ökumaður Red Bull voru jafnir að stigum fyrir lokakeppni Formúlu 1 tímabilsins í Abu Dhabi. Atvik sem átti sér stað undir lok keppninnar hefur skipt kappakstursáhugamönnum í tvennt. Eftir að Nicholas Latifi, ökumaður Williams, klessti bíl sinn innan brautar þurfti að kalla út öryggisbíl. Lengi vel leit út fyrir að keppnin myndi enda fyrir aftan öryggisbílinn en hann var kallaður inn fyrir lokahring keppninnar.

Fyrir það hafði hringuðum bílum fyrir aftan öryggisbílinn verið skipað að halda sig fyrir aftan öryggisbílinn þar sem að þeir voru staðsettir á milli Hamilton sem var í fyrsta sæti og Verstappen sem var í öðru sæti.

Keppnisstjórnendur ákváðu hins vegar að breyta ákvörðun sinni og leyfðu þeim bílum sem voru hring á eftir forystusauðunum að afhringa sig. Frá þeirri stundu varð ljóst að Hamilton ætti erfitt uppdráttar þar sem að Verstappen var á mun betri dekkjagangi. Svo fór að hann tók framúr Hamilton og tryggði sér sigur í stigakeppni ökumanna.

Hamilton og Verstappen eftir útslitakappaksturinn í Abu Dhabi
GettyImages

Eftirmálar

Staða Michaels Masi, keppnisstjóra Formúlu 1 er völt. Rannsókn er í gangi á atburðunum og ákvarðanatökunni sem átti sér stað í lokakeppni tímabilsins í Abu Dhabi.

FIA, regnhlífarsamtök Formúlu 1, munu ekki kynna niðurstöður rannsóknarinnar fyrr en þann 18 mars næstkomandi, tveimur dögum áður en fyrsta keppni ársins fer fram.

Mikil óvissa ríkir um framtíð Sir Lewis Hamilton, ökumanns Mercedes, í íþróttinni en hann ku vera mjög ósáttur við stjórn Formúlu 1. Hann hafði ætlað sér að bíða þangað til að niðurstöður rannsóknarinnar yrðu kynntar til þess að gera upp hug sinn en nú er ljóst að það gæti reynst erfitt.

Hamilton skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Mercedes á síðasta ári, samningur sem gildir út tímabilið 2023.

Michael Masi, keppnisstjóri Formúlu 1
GettyImages