Ummælin lét hann falla á tíma þar sem enska úrvalsdeildin er að leggja sitt af mörkum með sýnilegri baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks og LGBTQ+ samfélagsins. Meðal annars nota fyrirliðar liða í ensku úrvalsdeildinni fyrirliðabönd í regnbogalitum og einhverjir leikmenn eru með regnbogalitaðar reimar á knattspyrnuskóm sínum.

Mohamed Aboutrika er af mörgum talinn einn besti knattspyrnumaðurinn í sögu Egyptalands og hann lét þessi orð meðal annars falla í beinni útsendingu á BeIN sports: ,,Hlutverk okkar er að standa upp og berjast gegn þessu fyrirbæri sem samkynhneigð er vegna þess að þetta er hættuleg hugmyndafræði. Hún er ógeðfelld og einstaklingar skammast sín ekki lengur fyrir hana."

Hann er ekki hrifinn af framlagi ensku úrvalsdeildarinnar í þessum efnum. ,,Þeir (enska úrvalsdeildin) munu segja ykkur að samkynhneigð sé mannréttindi. Hún er ekki mannréttindi, heldur stríðir hún gegn mannkyninu," sagði Mohamed Aboutrika, fyrrum landsliðsmaður Egyptalands í knattspyrnu.

Í svari við fyrirspurn sem fréttastofan CNN sendi til BeIN sports um ummæli Mohemd vildi talsmaður BeIn sports ekki segja til um það hvort Mohamed yrði refsað fyrir athæfi sitt.

Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, bar regnbogalitað fyrirliðaband um síðustu helgi
GettyImages

Hræddur við að opinbera samkynhneigð sína

Mikið hefur verið rætt um málefni samkynhneigðra í tengslum við knattspyrnuheiminn undanfarna mánuði. Það vakti athygli undir lok októbermánaðar þegar að Josh Cavallo, leikmaður Adelaide United í Ástralíu, varð fyrsti atvinnu knattspyrnumaðurinn til að opinbera samkynhneigð sína.

Staðreyndin er sú að Josh var að taka frumkvæði á þessum tíma og vonandi munu fleiri fylgja honum því ekki veitir af. Undir lok októbermánaðar var sagt frá því að samkynhneigður leikmaður í ensku úrvalsdeildinni væri hræddur við að opinbera kynhneigð sína af ótta við viðbrögð annarra.

Leikmaðurinn hefur leitað sér sálfræðiaðstoðar. ,,Það er árið 2021 og ég ætti að geta sagt öllum frá því hver ég er,“ segir leikmaðurinn en The Sun birti grein um málið fyrr í október.

,,Það eru stuðningsmenn á pöllunum sem eru enn fastir á árunum í kringum 1980 hvað þetta varðar. Ég vil opna mig um þetta vegna þess að ég er eins og ég er og ég er stoltur af því. En í sannleika sagt verð ég krossfestur,“ segir leikmaðurinn.

GettyImages

Í fyrra var greint frá því að tveir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni hefðu sagt nánustu vinum og fjölskyldu frá því að þeir væru samkynhneigðir en að þeir væru hræddir við að opinbera það fyrir umheiminum.

Justin Fashanu, fyrrverandi leikmaður enska liðsins Norwich City, greindi frá því árið að 1990 að hann væri samkynhneigður. Hann tók sitt eigið líf árið 1998 eftir stöðugt aðkast sökum kynhneigðar sinnar.

Justin Fashanu
GettyImages