Ólafi Davíð Jóhannessyni þjálfara karlaliðs Vals í knattspyrnu mun líklega ekki vera boðinn nýr samningur þegar núgildandi samningur hans rennur eftir að yfirstandandi leiktíð lýkur samkvæmt heimildum fótbolta.net.

Valur hefur tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistari og tvívegis bikarmeistari á þeim fjórum árum sem Ólafur Davíð hefur verið við stjórnvölinn á Hlíðarenda.

Gengi liðsins hefur hins vegar verið undir væntingum í sumar en liðið situr í fimmta sæti deildarinnar með 25 stig eftir 19 umferðir og er 18 stigum á eftir toppliði deildarinnar, KR, þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni.

Valsmenn fá einmitt KR-inga í heimsókn á Origo-völlinn í næstu umferð á mánudagskvöldið kemur. Hávær orðrómur hefur verið um það að Heimir Guðjónsson muni taka við Valsliðinu af Ólafi Davíð í haust.

Heimir sem lék undir stjórn Ólafs Davíðs hjá FH, varð svo aðstoðarmaður hans hjá Hafnarfjarðarliðinu og tók síðan við FH-liðinu af honum hefur stýrt færeyska liðinu HB undanfarin tvö ár en ku vera á heimleið eftir tímabilið í Færeyjum.

Ólafur Davíð sagði eftir tapleik Vals gegn ÍBV í síðustu umferð deildarinnar að hann ætti fund með stjórnarmönnum félagsins daginn eftir en engar fregnar hafa borist af niðurstöðu af þeim fundarhöldum.