Jón Karl Ólafsson, formaður Fjölnis, segir í ársskýrslu félagsins, að komið sé að ákveðinni ögurstund í rekstri íþróttafélaga. Félagið tapaði um 22 milljónum króna en þetta er þriðja árið í röð sem félagið er rekið með halla. Það hefur tapað alls 53 milljónum síðustu þrjú ár.

„Við Fjölnismenn höfum rætt opinskátt um það, að núverandi rekstrarform íþróttafélaga gengur ekki upp til lengdar. Afkoma Fjölnis sýnir kannski stöðuna í hnotskurn og við vitum, að það eru mörg íþróttafélög komin í þrönga stöðu. Sem fyrr er það afreksstarf sem hefur hleypt kostnaði félaga upp. Staðan er einna verst í hópíþróttum, en þó má segja að afreksstarf almennt vegi þungt í rekstri íþróttafélaga,“ segir Jón Karl. Hann segir að erfitt sé að fá opinskáa umræðu á milli forráðamanna íþróttafélaga um leiðir til að mæta þeim breytingum á forsendum sem eru að verða á rekstri félaganna. „Ég held að það séu fáir sem trúa því, að rekstrarform íþróttafélaga verði óbreytt eftir um 10 ár. Það verða að koma til breytingar og nýjar hugmyndir til að félögin nái vopnum sínum til framtíðar.“ Hann hvetur forráðamenn íþróttafélaga til að koma að samtali framtíðarstefnu í rekstri félaganna.

„Hvaða leið sem valin er, þá er það staðreynd, að rekstrarkostnaður hefur hækkað og er orðinn þannig, að félögin standa einfaldlega ekki undir honum. Það verður því annað hvort að finna leiðir til lækkunar kostnaðar, eða til að gera rekstur félaga hagkvæmari. Þetta eru mjög krefjandi verkefni og því fyrr sem samtalið fer af stað því betra.“