Florentino Perez, forseti Real Madrid hefur útilokað þann möguleika að Cristiano Ronaldo, fyrrum leikmaður félagsins snúi aftur í raðir þess. Ronaldo reynir að fá sig lausan frá Manchester United þessa dagana og vill komast til félags sem spilar í Meistaradeild Evrópu. Útilokun Perezar hleypti reiði í systur Ronaldo sem sagði honum að líta í eigin barm.

Ronaldo átti á sínum tíma ansi góðar stundir hjá Real Madrid. Hjá félaginu vann hann allt sem hægt var að vinna og skoraði 444 mörk í 434 leikjum.

Myndskeið er nú í dreifingu þar sem Florentino Perez er spurður að því hvort félagið hyggist fá leikmanninn aftur í sínar raðir.

,,Fá Cristiano? Aftur? Hann er 38 ára gamall," er svar Perezar í myndskeiðinu en þess ber þó að geta að Ronaldo er bara 37 ára gamall.