Tennisspilarar sem eru ekki bólusettir fyrir Covid-19 veirunni munu ekki fá að taka þátt á opna ástralska meistaramótinu í tennis, þetta hefur Craig Tiley, framkvæmdarstjóri mótsins staðfest.

Novak hefur ekki viljað gefa það upp til þessa hvort hann sé bólusettur fyrir veirunni og faðir hans þessa ákvörðun mótshaldara vera kúgun.

,,Hvað bólusetta og óbólusetta varðar er það persónulegur réttur okkar að ákveða hvort við verðum bólusett eða ekki. Það getur enginn tekið þessa ákvörðun fyrir okkur," sagði Srdjan Djokovic í viðtali á serbnesku sjónvarsstöðinni Prva.

Novak hefur unnið mótið níu sinnum, síðast fyrir ári síðan og hefur á sínum ferli unnið tuttugu risamót og deilir því meti með Roger Federer og Rafa Nadal. Federer muni ekki taka þátt á mótinu í janúar þar sem hann er að jafna sig eftir aðgerð á hné en Nadal verður á sínum stað á mótinu.

Mótið fer fram dagana 17-30. janúar næstkomandi í Melbourne í Ástralíu. Stefnt er að því að geta fyllt leikvangana sem leikið verður á af áhorfendum.

Samkvæmt gögnum sem Alþjóðatennissamband karla hefur undir höndunum hafa 80 af 100 efstu tennispilurum í heimi verið bólusettir fyrir veirunni en slík gögn er ekki hægt að finna um stöðuna í kvennaflokki enn sem komið er.