Joe Burrow, leikstjórnandi Cincinatti Bengals, segir að heilahristingur sé órjúfanlegur hluti af leiknum í NFL-deildinni. Hann segist vita til þess að hann hafi fengið heilahristing.

Þetta kom fram í hlaðvarpi Colin Cowherd. „Það verða höfuðmeiðsli, það verða krossbandaslit og brotin bein. Þetta er leikurinn og lífið sem fylgir honum. Við fáum vel borgað en vitum um leið um áhættuna þegar leikurinn er að hefjast,“ sagði Burrow, aðspurður út í heilahristinga og hélt áfram:

„Það eru leikir þar sem ég man ekki eftir seinni hálfleiknum, jafnvel öllum leikjunum þar sem ég fann fyrir svima. Það eru hinsvegar engin langtímaáhrif.“

Undanfarin ár hefur vitundarvakning átt sér stað um hættuna sem fylgir heilahristingum hjá leikmönnum í NFL-deildinni sem fá margir hverjir heilahristing oft á ferlinum.

Það vakti mikla reiði þegar Tua Tagovailoa fékk að halda leik áfram eftir að hafa sýnt greinileg einkenni heilahristings í leik Miami Dolphins gegn Buffalo Bills á dögunum.

Aðeins fjórum dögum síðar fékk leikstjórnandinn annað höfuðhögg og var fluttur á spítala til nánari rannsókna.

Taugasérfræðingurinn Bennet Omalu sem vann að heimildarmyndinni Concussion sem fjallaði um áhrif höfuðhögga á heilastarfsemi NFL-leikmanna hvatti Tua til að hætta.

Búið er að reka lækninn sem gaf grænt ljós á að Tua færi aftur inn á völlinn gegn Bills.