Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að brasilíski miðjumaðurinn Fred þurfi að bæta varnarleikinn til að komast inn í liðið.

Manchester United greiddi Shakhtar Donetsk rúmlega fimmtíu milljónir punda fyrir Fred í sumar og var hann stærsta stjarnan sem liðið keypti.

Hann hefur ekkert komið við sögu í ensku úrvalsdeildinni í rúman mánuð og aðeins byrjað þrjá leiki af síðustu fjórtán.

Fred var hvergi sjáanlegur í leikmannahópi Manchester United gegn Arsenal í vikunni, stuðningsmönnum til mikillar undrunar.

„Það þurfa margir leikmenn að fá fleiri mínútur, meðal annars Fred en þegar við verjumst er ekki gott að hafa hann á miðjunni. Þegar hann bætir varnarleikinn og varnarleikur liðsins verður betri kemur hann aftur inn.“