Greint var frá því fyrr í kvöld að Dagný Brynjarsdóttir hafi ákveðið að hætta að leika sem atvinnumaður með NWSL-liðinu Portland og leika þess í stað með Selfossi hér heima næstu tvö árin.

Margir reka upp stór augu við þessa ákvörðun Dagnýjar sem er á hápunkti ferils síns að koma heim úr atvinnumennsku. Dagný útskýrir þessa ákvörðun sína nokkuð ítarlega í færslu á Instagram-síðu sinni í kvöld.

Þar segir hún erfitt fyrir atvinnukonur í knattspyrnu að samtvinna fjölskyldulífið með vinnu sinni eins og staðan er núna. Ef með eru taldar landsliðsferðir sé fjarvera hennar frá barni hennar of mikil.

„Það er með trega í hjarta sem ég tilkynni að ég muni ekki koma aftur til Portland á næsta keppnistímabili. Þetta var virkilega erfið ákvörðun en þegar öllu er á botninn hvolft er þetta það besta sem ég gert fyrir sjálfa mig og fjölskyldu mína," segir Dagný í færslu sinni.

„Því miður er kvennaknattspyrna ekki kominn á þann stað ennþá að atvinnumannalífið og fjölskyldulífið eigi auðvelda samleið. Það er ómögulegt fyrir mig að leika erlendis og hafa fjölskylduna hjá mér," segir hún enn fremur.

„Þegar öll ferðalögin með félagsliðinu og landsliðinu á ári hverju ári eru tekin saman er ég svo samtals fjóra mánuði fjarri syni mínum á árinu. Það er svekkjandi að ég hafi ekki efni á því að taka hann með mér í öll ferðalögin sem knattspyrnan hefur í för með sér," segir landsliðskonan.

„Af þeim sökum hef ég ákveðið að flytja heim til Íslands og spila þar. Mig langar á þessum tímamótum að þakka kærlega fyrir þau dásamlegu þrjú ár sem ég hef átt í Portland. Takk fyrir að hafa trú á mér eftir að ég eignaðist mitt fyrsta barn og að koma mér aftur í mitt besta form inni á knattspyrnuvellinum.

Endurkoman var mjög erfið en þið gerðuð hana auðveldari með því að sjá mjög vel um mig og mína fjölskyldu. Það var frábær tilfinning að spila aftur með liðinu gegn bestu leikmönnum heim. Þið hafið tekið kvennaknattspyrnu upp á næsta stig og ég ég er mjög þakklát fyrir stuðning ykkar," segir Dagný full þakklætis í garð fólksins í Portland.