Þar er rætt við einstakling sem vill ekki láta nafn síns getið en þekkir, að sögn blaðamanns The Athletic, vel til leikmanna íslenska karlalandsliðsins. Hann vill ekki meina að það sé eitthvað að menningunni innan liðsins, hann segir engan sameiginlegan þráð milli þeirra mála sem hafi verið í umræðunni um meint kynferðislegt ofbeldi landsliðsmanna.

Heimildarmaður miðilsins viðurkennir hins vegar að þetta líti mjög illa út.

Fjarlægðust raunveruleikann

Í greininni er einnig talað við Kolbrúnu Hrund Sigurgeirsdóttur, hún leiðir starfshóp sem var skipaður af stjórn KSÍ. Starfshópurinn hefur það verkefni að vinna að jafnréttismálum. Hún er einnig verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar.

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir

Kolbrún segir ekkert benda til þess að þetta sé algilt vandamál sem teygi anga sína í gegnum knattspyrnuhreyfinguna hér á landi. Hún veltir hins vegar fyrir sér þeim undirliggjandi skilaboðum sem leikmenn íslenska karlalandsliðsins kunna að fá vegna stöðu sinnar, hvernig raunveruleiki þeirra breytist eftir að þeir byrja að spila fyrir landsliðið.

,,Þeir voru hetjur okkar og allir elskuðu þá en það tók þá fjær raunveruleikanum,“ segir Kolbrún um gullaldarlið Íslands sem komst á EM 2016 og HM 2018, nokkrir af leikmönnum liðsins hafa verið sakaðir um kynferðislegt ofbeldi gegn konum. ,,Í kjölfarið fá þeir fjölda skilaboða frá stelpum og konum og ég tel að þeir hafi ekki kunnað að bregðast við því. Ég tel að þeir hafi misnotað aðstöðu sína og talið sig eiga rétt á því að haga sér á ákveðinn hátt.“