Marc-Andre ter Stegen, markvörður Barcelona og þýska landsliðsins, telur að Barcelona sé með sterkara lið í dag þrátt fyrir að hafa selt einn af bestu leikmönnum heims, Neymar, til Paris Saint Germain fyrir metfé síðasta sumar.

Mikið var rætt um félagsskipti Neymar til Parísarliðsins síðasta sumar en PSG greiddi riftunarverðið í samningi Neymar sem var rúmlega tvöfalt meira en nokkuð annað félag hafði greitt fyrir leikmann fram að því.

Þrátt fyrir að hafa misst einn af bestu leikmönnum heims sem er nýorðinn 26 ára og ætti því að toppa á næstu árum telur ter Stegen að Börsungar séu sterkara lið í dag. Eftir 1-5 tap gegn Real Madrid í spænska Ofurbikarnum hefur Barcelona aðeins tapað einum leik í öllum keppnum.

„Hann hafði auðvitað ótrúlega hæfileika og var mjög mikilvægur liðinu, bæði sem leikmaður og sem persóna innan klefans. Það var ekki auðvelt að reyna að finna einhvern í hans stað en við fórum aðra leið og erum með að mínu mati sterkara lið í dag,“ sagði ter Stegen og bætti við:

„Við fengum nýja leikmenn sem styrktu liðið á öðrum sviðum, þeir eru að aðlagast hópnum og að spila eftir hugmyndum Barcelona. Það mun taka tíma en leikmenn á borð við Coutinho og Dembele eru ungir og eiga eftir að eiga bestu ár sín hjá Barcelona.“