Sjöfaldi heimsmeistarinn Sir Lewis Hamilton, ökuþór Mercedes, hefur verið að keyra frábærlega undanfarnarkeppnir og hefur náð að minnka bil Max Verstappens, ökuþórs Red Bull Racing, niður í átta stig.

Bíllinn hjá Mercedes hefur reynst afar vel nú á seinni hluta tímabilsins og Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes, er ánægður með afkastagetu hans. ,,Bíllinn er á mjög góðum stað og árangurinn undanfarið hefur verið góður. Ég myndi segja að við séum besta staðnum til þessa á tímabilinu."

Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes
GettyImages

Verstappen gæti tryggt sér heimsmeistaratitilinn um helgina í Sádí-Arabíu en skriðþunginn virðist vera með Mercedes liðinu á þessum tímapunkti. ,,Við erum spennt fyrir því að vera enn með í baráttunni á þessum tímapunkti tímabilins, það eru forréttindi og til merkis um þrautseigju okkar að sú sé staðan miðað við hvar við stóðum fyrr á árinu. Það er allt galopið enn þá í stigakeppni ökumanna og bílasmiða og markmið okkar eru skýr," sagði Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes í samtali við F1.com.

Keppt á glænýrri braut

Keppt verður í Jeddah í Sádí-Arabíu um helgina í fyrsta skipti í sögu Formúlu 1. Um er að ræða glænýja kappakstursbraut og hún býður upp á einn mesta meðalhraða af þeim brautum sem mynda keppnistímabilið í Formúlu 1.

Æfingar á brautinni hefjast á föstudaginn og Toto segir mikilvægt að ná sem mestum upplýsingum frá þeim til þess að byggja ofan á fyrir keppnina. ,,Þetta er hröð götubraut með löngum beinum köflum sem og nokkrum háhraða beygjum. Við erum staðráðnari en nokkru sinni áður að gera okkur gildandi í baráttunni og hlökkum til að takast á við kappaksturinn í Sádí-Arabíu.