Í aðsendri grein sinni sem birtist á vefsíðunni akureyri.net segir Árni að Íþróttafélag Þórs hafi ekki yfir að ráða löglegum keppnisvelli fyrir handbolta á sínu félagssvæði. Félagið hefur verið að spila meistaraflokksleiki sína í Íþróttahöllinni svokölluðu en sökum álags á höllinni hefur æfinga- og leikjaplan verið óreglulegt.

Félagið hefur yfir að ráða velli í íþróttahúsinu við Síðuskóla en Árni telur það hafa verið hannað og skipulagt af aðilum sem stóðu í þeirri trú að Þór myndi sennilega ekki ætla að halda úti handknattleiksdeild.

,,Starf handknattleiksdeildar Þórs er tætingslegt, deildin hefur engan samastað sem tengir iðkendur við félagið, yngri flokkarnir æfa í Síðuskóla og meistaraflokkur í höllinni en þeir skottast svo í Síðuskóla þegar höllin er upptekin. Þannig að handknattleiksiðkandi hjá Þór getur æft handbolta í 15 ár án þess að „þurfa“ að koma í Hamar, félagsheimili og hjarta Þórs," skrifar Árni og segir þetta ekki góða stöðu.

Bráðvantar íþróttahús á félagssvæði Þórs

Árni spyr síðan hvert verið sé að stefna og segir bæjaryfirvöld á Akureyri verða að fara taka alvarlega þá bláköldu staðreynd að það bráðvanti eitt stykki íþróttahús á félagssvæði Þórs.

,,Það er ekkert leyndarmál að bæjarfulltrúar hafa komið að máli við hæstráðendur hjá Þór og hreinlega beðið þá um að leggja niður handbolta, hætta með handbolta vegna aðstöðuleysis. Gert grín að ráðningu þjálfara handknattleiksdeildarinnar opinberlega. Hef ég heyrt margt skrautlegt um ævina en þetta fer á toppinn," skrifar Árni í aðsendri grein á Akureyri.net.

Árni segir bæjaryfirvöld verða að grípa strax inn í og byggja upp aðstöðu á félagssvæði Þórs. ,,Það þarf að byggja þetta þannig að eftir 30 ár standi það húsnæði enn undir þeirri starfssemi sem ætlast sé til að hún hýsi. Hugsa stórt og framkvæma á fullri ferð."

Undanfarið hefur borið mikið á ákalli bæði frá KA og Þór um að aðstaða félaganna verði bætt. Í upphafi mánaðar steig Jónatan Magnússon, þjálfari karlaliðs KA í handbolta fram og sagði bæjaryfirvöld á Akureyri vera metnaðarlaus þegar kemur að því að skara fram úr.

Þá gagnrýndi Arnar Grétarsson, þjálfari karlaliðs KA í knattspyrnu, bæjaryfirvöld á Akureyri í þættinum 433.is sem var sýndur á sjónvarpsstöðinni Hringbraut og sagði þau hafa svikið loforð.

Árni segist vonast til að hugsunarháttur bæjaryfirvalda á Akureyri breytist. ,,Meiri kjark og metnað bæjarfulltrúa í uppbyggingu íþróttamannvirkja."

Pistil Árna Rúnars, formanns handknattleiksdeildar Þórs má lesa í heild sinni hér.