Það er mikil framför hjá liðinu frá því í fyrra þar sem að árangurinn var undir væntingum og liðið endaði í sjötta sæti. Mattia Binotto, liðsstjóri Ferrari, segir að árangurinn hjá liðinu í ár og slagurinn við erkifjendurna í McLaren, hafi ekki bitnað á þróun liðsins á bíl næsta tímabils. Charles Leclerc og Carlos Sainz eru ökuþórar Ferrari.

Binotto segir að öllu heldur hafi starfslið Ferrari nánast eingöngu verið með áhersluna við að gera bíl næsta tímabils klárann. ,,Við höfum í raun og veru ekkert verið að þróa núverandi bíl í gegnum tímabilið. Við höfum breytt einhverju við hann en það er ekki mikið."

Mattia Binotto, liðsstjóri Ferrari í Formúlu 1
GettyImages

Ferrari er með helmingi fleiri stig núna þegar að tvær keppnir eru eftir af tímabilinu heldur en liðið var með eftir síðasta tímabil.

Miklar breytingar á reglum Formúlu 1 taka gildi á næsta tímabili og þá munu bílarnir sem keppa á tímabilinu einnig taka miklum breytingum. Binotto segir það ekki hafa verið markmið hjá Ferrari að enda í þriðja sæti á tímabilinu, heldur vildi liðið bæta sig á öllum sviðum en vissi að með því að gera það gæti möguleikinn á þriðja sætinu verið góður.

,,Samvinna liðsins er það sem er að skila okkur í þriðja sætið núna. Það hvernig við höfum verið að vinna saman á tímabilinu er að skila sér, það er ekki bara þróun á bílnum sem er að skila þessum árangri."

Ferrari er 39,5 stigum á undan McLaren nú þegar að tvær keppnir eru eftir af tímabilinu.