Samkvæmt Huiberts, hefur Albert ekki áhuga á að skrifa undir nýjan samning hjá AZ Alkmaar, hann vill reyna fyrir sér annarsstaðar og þá fyrir utan Holland.

Albert er eftirsóttur leikmaður og hefur verið orðaður við lið á borð við Rangers, Celtic og Lazio. Þá hefur hann einnig verið orðaður við vistaskipti innan hollensku deildarinnar, Feyenoord ku hafa áhuga á honum en miðað við orð Huiberts mun Albert frekar kjósa að ganga til liðs við félag utan Hollands.

AZ Alkmaar gæti tekið þann pól í hæðina að reyna losa sig við Albert núna í janúar og fá fyrir hann pening fremur en að missa hann frá sér á frjálsri sölu eftir tímabilið.

Heitastur fyrir Spáni

Albert Brynjar Ingason, frændi Alberts, ræddi stöðu hans hjá AZ Alkmaar og framtíðarhorfur í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í síðustu viku.

,,Það er talað um að hann fari í janúar, AZ Alkmaar fengi þá eitthvað fyrir hann," sagði Albert Brynjar í Dr. Football, hann segist vera búinn að heyra í frænda sínum sem stefnir á að klára tímabilið með AZ Alkmaar.

,,Draumur hans er að spila á Spáni en hann veit að það er erfitt að komast þar að. Það er ekki mikið um Íslendinga sem hafa spilað á Spáni. Hann er heitastur fyrir Spáni en er hins vegar miklu meira að spá í stærð félagsins en í hvaða landi það er," sagði Albert Brynjar í Dr. Football.

Þá segir Albert Brynjar að AZ Alkmaar vilji reyna að fá eitthvað fyrir hann en að hann ætli ekki að láta þvinga sig í burtu nema hann sé spenntur fyrir félaginu sem býður í hann.