Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðsins, á von á erfiðum leik á morgun þar sem andstæðingarnir, Tékkland, viti að um sé að ræða hálfgerðan úrslitaleik fyrir þær.

Jafntefli ætti að duga Íslandi til að tryggja annað sæti riðilsins takist Stelpunum okkar að fylgja því eftir með sigri á Hvít-Rússum í haust.

Íslenskur sigur annað kvöld tryggir Íslandi endanlega annað sæti riðilsins en sigur Tékka hlepir spennu í riðilinn á ný.

„Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að staðan er þannig að Tékkar þurfa að vinna þennan leik. Ég býst við því að þær reyni að beita okkur þrýsingti og reyna að koma okkur í vandræði.“

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, leikmaður kvennalandsliðsins, segir að leikmenn liðsins séu tilbúnir og geri sér grein fyrir mikilvægi verkefnisins.

„Það þarf varla að ræða sérstaklega mikilvægi leiksins, við vitum það allar. Það eru allar tilbúnar að leggja allt í þennan leik og við erum allar á sömu blaðsíðu þegar kemur að mikilvægi þessa leiks.“