Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handboltam, er á leið til þýska efstudeildarliðsins Melseungen frá danska liðinu Skjern eftir að yfirstandandi keppnistímabili lýkur. Það er visir.is sem greinir frá þessu.

Elvar Örn mun þar leika undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar sem stýrir honum einnig hjá íslenska landsliðinu. Þar verður þessi 23 ára gamla skytta liðsfélagi Arnars Freys Arnarssonar.

Melsungen verður þriðja félagið sem Elvar Örn leikur með en hann gekk til liðs við Skjern eftir að hafa verið valinn besti leikmaður Olísdeildarinnar, sem leikmaður Selfoss, tvö ár í röð.

Elvar Örn sagði skilið við uppeldisfélag sitt, Selfoss, sem Íslandsmeistari vorið 2019.

Melsungen er í 13. sæti þýsku efstu deild­ar­inn­ar með 13 stig eftir 10 leiki en liðið á nokkra leiki inni á önnur lið í deildinni þar sem þurft hefur að fresta leikjum liðsins vegna kórónaveirusmita í herbúðum félagsins.

Þeir félagar Elvar Örn, Guðmundur Þórður og Arnar Freyr verða í eldlínunni með íslenska liðinu í dag þegar Ísland mætir Sviss í fyrsta leik í milliriðli heimsmeistaramótsins sem fram fer í Egyptalandi þessa dagana.