Jeff Carlisle, fréttamaður á ESPN, segir það ólíklegt að Aron Jóhansson muni skoða tilboð frá MLS-deildinni í sumar þrátt fyrir meintan áhuga Seattle Sounders.

Samningur Arons hjá Werder Bremen rennur út um næstu helgi og er honum frjálst að ræða við önnur lið eftir að í ljós kom að Werder mun ekki bjóða honum nýjan samning.

Aron sem kaus að leika fyrir bandaríska landsliðið og fór með Bandaríkjunum á HM 2014 lýsti yfir áhuga á að spila einn daginn í MLS þegar hann samdi við Werder Bremen fyrir fjórum árum síðan.

Honum tókst aldrei að standa undir væntingum með Werder Bremen þar sem hann lék þrjátíu leiki í öllum keppnum á fjórum árum eftir að þýska félagið keypti hann frá AZ Alkmaar í Hollandi.

Aron hefur eytt undanförnum dögum á Íslandi við æfingar hjá Toppþjálfun ásamt Jóhanni Berg Guðmundssyni, leikmanni Burnley.