Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, segist finna fyrir ótta af hálfu þýska landsliðsins fyrir leikinn gegn Íslandi þann 1. september næstkomandi.

Liðin mætast á Laugardalsvelli þar sem Ísland getur með sigri bókað sæti sitt á lokakeppni HM í kvennaflokki í fyrsta sinn.

Greindi hann frá því að þýski landsliðsþjálfarinn hefði fengið betra aðgengi að leikmönnum en áður þekktist en pressan væri öll á þýska liðinu.

„Þær eru með eitt besta lið heims og hafa ekki fengið á sig mark eftir leikinn gegn okkur. Það var skipt um þjálfara og liðið er á góðri leið undir hans stjórn. Það eru frábærir einstaklingar í liðinu og þær fá mörk úr öllum áttum,“ sagði Freyr og hélt áfram:

„Ég skoðaði úrvalið sem hann hefur og gat valið þrjátíu leikmenn sem gera allar tilkall til að byrja þessa leiki en pressan er á þeim. Það er skandall ef þær vinna ekki þennan riðil og þær óttast það.“

Þær hafa eytt undanförnum dögum í æfingarbúðum.

„Það er algjör nýlunda að þetta sé leyft svona stuttu fyrir deildarkeppnina en þær eru búnar að eyða undanförnum dögum í æfingarbúðum til að undirbúa þennan leik, það sýnir hvað þetta skiptir miklu máli.“