Mick Schumacher, sonur goðsagnarkennda ökuþórsins Michael Schumacher, mun taka þátt í reynsluakstri fyrir hönd Ferrari í næstu viku og fetar með því í fótspor pabba síns sem varð heimsmeistari fimm ár í röð í bíl frá Ferrari á sínum tíma.

Annar kappakstur tímabilsins fer fram í Barain um helgina en degi eftir kappaksturinn fá framleiðendurnir að prófa nýja hluti á brautinni og um leið nýja ökuþóra í bílunum.

Mick sem er 20 ára gamall var fenginn inn í akedemíu Ferrari í vetur og mun í fyrsta sinn aka í bíl frá Ferrari á mánudaginn ásamt því að keyra fyrir Alfa Romeo, lið sem er í samstarfi við Ferrari.

Þá mun Mick þreyta frumraun sína í Formúlu 2 um helgina í Barain eftir að hafa keppt í Formúlu 3 undanfarin ár með góðum árangri.

Faðir hans, Michael, er einn besti ökuþór allra tíma og sá sem vann flesta heimsmeistaratitla ökuþóra (7) og hefur unnið flestar keppnir (91) en ekki hefur til hans sést í rúm fimm ár síðan hann slasaðist alvarlega á skíðum í Frakklandi í árslok 2013.