Toto Wolff, liðs­stjóri For­múlu 1 liðs Mercedes segir að Mick Schumacher, ný­ráðinn vara­öku­maður liðsins verð­skuldi tæki­færi til þess að sanna sig enn frekar í For­múlu 1.

Fyrr í dag var Schumacher kynntur sem nýr vara­öku­maður Mercedes út tíma­bilið 2023, tæki­færi sem Toto Wolff segir Þjóð­verjann unga verð­skulda.

,,Mick er hæfi­leika­ríkur ungur öku­maður og við erum himin­lifandi með að hafa fengið hann hinað. Hann leggur hart að sér, er ró­lyndis­maður sem hungrar í árangur og bætingu sem öku­maður."

Mick mun verða við­staddur allar keppnis­helgar For­múlu 1 með Mercedes á næsta tíma­bili, sinna á­kveðnum markaðs­legum skyldum sem öku­maður liðsins auk þess sem hann mun koma að þróun bílsins, meðal annars í gegnum aksturs­hermi.

Hann fetar nú í fót­spor, föður síns, sjö­falda heims­meistarans Michael Schumacher sem varð á sínum For­múlu 1 ferli sjö­faldur heims­meistari í móta­röðinni.

Samningur Micks við Formúlu 1 lið Haas rann út eftir síðasta tímabil og var ekki endurnýjaður. Hann á að baki tvö heil tímabil í Formúlu 1.