Mick Schumacher, ökumaður Haas í Formúlu 1 nældi sér í sín fyrstu stig á Formúlu 1 ferlinum í gær á Silverstone brautinni í Bretlandi. Schumacher hafði átt á brattann að sækja fyrir keppni helgarinnar, margir efuðust um getu hans til að vera í Formúlu 1 en allt erfiðið skilaði sér og hann tileinkaði föður sínum, sjöfalda heimsmeistaranum Michael Schumacher árangur helgarinnar.

Mick endaði í 8. sæti í keppni helgarinnar eftir harða baráttu við ríkjandi heimsmeistarann Max Verstappen, ökumann Red Bull Racing undir lok keppninnar. Mick ók frábærlega í gær eftir að hafa byrjað keppnina í 19. sæti og var að vonum ánægður með niðurstöðu gærdagsins.

Michael Schumacher, sjöfaldur heimsmeistari í Formúlu 1 og faðir Micks
GettyImages

,,Þetta er fyrir pabba," sagði Mick í samskiptum við liðsfélaga sína hjá Haas. Michael Schumacher, faðir Micks er goðsögn í Formúlu 1 en lítið hefur frést af líðan hans eftir alvarlegt skíðaslys sem hann lenti í árið 2013.

Mick hefur, eins og áður sagði, legið undir mikilli gagnrýni fyrir að hafa ekki nælt í stig á Haas bílnum. Margir efuðust hreinlega um að hann væri þess verðugur að aka í Formúlu 1. Þessi ungi Þjóðverji svaraði hins vegar fyrir sig um helgina með frábærri frammistöðu. Spennandi verður að sjá hvort hann nái að byggja ofan á þennan árangur.