Þrátt fyrir að Mick Schumacher sé nú orðinn vara­öku­maður Mercedes í For­múlu 1 hefur hann ekki gefið upp á bátinn um öku­manns­sæti í móta­röðinni á næsta ári. Nú þegar hafi hann heyrt af á­huga nokkurra liða.

Frá þessu greindi Mick, sem er sonur For­múlu 1 goð­sagnarinnar Michael Schumacher, í við­tali eftir frum­sýningu Mercedes á bíl liðsins fyrir komandi tíma­bil.

Undan­farin tvö tíma­bil hefur Mick verið aðal­öku­maður Haas í móta­röðinni en eftir síðasta tíma­bil á­kvað liðið að endur­nýja ekki samning sinn við Þjóð­verjann.

„Það er auð­vitað ekkert í hendi varðandi það að ég snúi aftur árið 2024 en ég er í á­kjósan­legri stöðu og get í nú­verandi hlut­verki reynt að taka sem mest út úr þessu ári jafn­vel þó að ég verði ekki að keppa.“

Mick hefur trú á því að árangurinn sem hann hefur náð, meðal annars í undir­móta­röðum For­múlu 1, sjái til þess að mögu­leikar verði í stöðunni þegar á hólminn er komið.

„Ég er viss um að tæki­færi verði til staðar. Yfir vetrar­tímann hafa nokkrir nefnt það við mig að á­hugi sé á mínum kröftum, þannig ég er ekki of á­hyggju­fullur þessa stundina.

Þrátt fyrir að vera ekki að keppa í For­múlu 1, ætlar Schumacher sér að halda sama tempói og hann við­hafði sem aðal­öku­maður í móta­röðinni.

„Ég mun nálgast þessa nýju stöðu með sama hætti og ég hef gert áður. Reyni að læra frá þessu og nýta mér í fram­haldinu og á sama tíma vera eins mikið til staðar fyrir liðið og ég get.“