Þrátt fyrir að Mick Schumacher sé nú orðinn varaökumaður Mercedes í Formúlu 1 hefur hann ekki gefið upp á bátinn um ökumannssæti í mótaröðinni á næsta ári. Nú þegar hafi hann heyrt af áhuga nokkurra liða.
Frá þessu greindi Mick, sem er sonur Formúlu 1 goðsagnarinnar Michael Schumacher, í viðtali eftir frumsýningu Mercedes á bíl liðsins fyrir komandi tímabil.
Undanfarin tvö tímabil hefur Mick verið aðalökumaður Haas í mótaröðinni en eftir síðasta tímabil ákvað liðið að endurnýja ekki samning sinn við Þjóðverjann.
„Það er auðvitað ekkert í hendi varðandi það að ég snúi aftur árið 2024 en ég er í ákjósanlegri stöðu og get í núverandi hlutverki reynt að taka sem mest út úr þessu ári jafnvel þó að ég verði ekki að keppa.“
Mick hefur trú á því að árangurinn sem hann hefur náð, meðal annars í undirmótaröðum Formúlu 1, sjái til þess að möguleikar verði í stöðunni þegar á hólminn er komið.
„Ég er viss um að tækifæri verði til staðar. Yfir vetrartímann hafa nokkrir nefnt það við mig að áhugi sé á mínum kröftum, þannig ég er ekki of áhyggjufullur þessa stundina.
Þrátt fyrir að vera ekki að keppa í Formúlu 1, ætlar Schumacher sér að halda sama tempói og hann viðhafði sem aðalökumaður í mótaröðinni.
„Ég mun nálgast þessa nýju stöðu með sama hætti og ég hef gert áður. Reyni að læra frá þessu og nýta mér í framhaldinu og á sama tíma vera eins mikið til staðar fyrir liðið og ég get.“