Mick Schumacher segir von­brigða til­finningu fylgja því að fá ekki tæki­færi til þess að aka fyrir Haas á næsta tíma­bili í For­múlu 1. Liðið hefur á­kveðið að semja ekki að nýju við Schumacher og í stað hans kemur inn reynslu­mikill öku­maður, Nico Hul­ken­berg. Ó­víst er hvað fram­tíðin ber í skauti sér fyrir Þjóð­verjann en líkurnar á öku­manns­sæti á rás­röðinni á næsta tíma­bili eru litlar sem engar.

„Auð­vitað eru þetta von­brigði," sagði Mick í sam­tali við F1.com. „Vegna þess að ég tel mig hafa verið að standa mig nokkuð vel fram að þessum tíma­punkti. Að sama skapi virði ég á­kvörðun liðsins, nú ein­blíni ég bara á fram­tíðina.“

En hvað felur það í sér?

„Ég vil klár­lega vera við­riðinn móta­röðina þannig ég mun skoða þá kosti sem koma upp á borðið og vonandi taka rétta á­kvörðun sem verður til þess að ég eigi bjarta fram­tíð.“

Hann vilji koma sér í sem besta stöðu

„Stöðu sem ég veit að mun gera mér gott. Þó það sé staða vara­öku­manns. Ég mun vega allt og meta á­samt teyminu í kringum mig, fólk sem ég get treyst og mun ráð­færa mig við. Vonandi get ég fært ykkur ein­hverjar fréttir á næstunni.“

Lawrence Bar­retto, blaða­­maður F1.com segist hafa heimildir fyrir því að nú þegar hafi átt sér stað við­ræður milli Mick Schumacer og Mercedes um að hann gerist vara­öku­­maður liðsins.

Tengsl Schumacher fjöl­­skyldunnar við Mercedes eru mikil og góð eftir tíma Michael Schumacher hjá liðinu á sínum tíma. Hjá Mercedes gæti Mick komist að hjá marg­­reyndu meistara­liði og sogað í sig kunn­áttu sjö­falda heims­­meistarans Sir Lewis Hamilton í leiðinni.

Þá gæti þessi leið mögu­­lega tryggt honum sæti á rás­röðinni árið 2024.