Yfir allt síðasta tímabil tjónaði Mick Schumacher, bíl sinn fyrir fjárhæð sem nemur tæpum fjórum milljónum punda, eða því sem jafngildir tæpum 695 milljónum íslenskra króna.

Mick er sonur Michaels Schumacher, sjöfalds heimsmeistara í Formúlu 1 og var að keppa á sínu fyrsta tímabili í Formúlu 1 eftir að hafa heillað í undirmótaröðum íþróttarinnar.

Næstur á listanum á eftir Mick Schumacher er Charles Leclerc, ökumaður Ferrari, sem tjónaði bíl sinn fyrir því sem nemur rúmum 3,4 milljónum punda.

Nýkrýndur heimsmeistari í Formúlu 1, Max Verstappen, ökumaður Red Bull Racing, vermir síðan þriðja sæti listans með tjón sem að nemur rúmum 3,3 milljónum punda.

Ökumenn franska liðsins Alpine, þeir Fernando Alonso og Esteban Ocon stóðu sig frábæralega á tímabilinu í þessum efnum. Samanlagður viðgerðarkostnaður þeirra nemur rétt rúmum 500.000 pundum.

Þrátt fyrir að viðgerðarkostnaðurinn á bíl Mick Schumacher hafi verið mestur þá náði ökumaðurinn að heilla á tímabilinu á Haas bíl sem var langt frá því að vera samkeppnishæfur.

Í gær var það tilkynnt að ásamt því að vera ökumaður Haas á næsta tímabili mun Schumacher vera varaökumaður hjá Ferrari í ellefu af 23 keppnum næsta tímabils.

Schumacher nafnið er í miklum metum á Ítalíu og ljóst að forráðamenn Formúlu 1 liðs Ferrari hafa trú á hinum unga Þjóðverja.