Mattia Binotto, liðs­stjóri For­múlu 1 liðs Ferrari segist munu setjast niður með Mick Schumacher fyrir lok yfir­standandi tíma­bils og ræða við hann um fram­tíð hans í For­múlu 1. Mikil ó­vissa er uppi um stöðu Schumacher­s í For­múlu 1 þessar vikurnar.

Mick er, eins og flestir vita, sonur For­múlu 1 goð­sagnarinnar Michael Schumacher sem varð á sínum tíma sjö­faldur heims­meistari í móta­röðinni og um leið goð­sögn í sögu Ferrari. Mick hefur verið að feta spor sín í For­múlu 1 og er nú á sínu öðru tíma­bili í móta­röðinni.

Sögu­sagnir undan­farinna vikna hafa verið á þá leið að Mick, sem er hluti af öku­manns akademíu Ferrari, muni ekki fá annan samning hjá liðinu en hann er nú­verandi öku­maður Haas í For­múlu 1 sem hefur tengsl við Ferrari.

Binotto, liðs­stjóri Ferrari undan­farinna tíma­bila segir þó að hann muni setjast niður með Schumacher fyrir lok yfir­standandi tíma­bils.

„Hvað Mick varðar, þá miðuðu okkar á­ætlanir alltaf við að hann myndi taka skref fram á við í sinni öku­manns­þróun á tíma­bilinu. Eftir nokkrar keppnis­helgar munum við setjast niður saman, fara yfir tíma­bilið með Haas og á­kveða fram­haldið."

Schumacher er 23 ára gamall og talið er ó­lík­legt að hann haldi á­fram sem öku­maður Haas, þá er ekki mikið um opnanir hvað öku­manns­sæti varðar í For­múlu 1 eftir að kapallinn fór af stað fyrir nokkrum mánuðum.