Mick Schumacher ók um ný­liðna helgi sína síðustu keppni í For­múlu 1, í bili, en Þjóð­verjinn ungi segist ætla legga enn harðar að sér núna til þess að vinna sér inn sæti í móta­röðinni á nýjan leik, móta­röð sem Schumacher er sam­ofið.

For­ráða­menn banda­ríska For­múlu 1 liðsins Haas á­kváðu að endur­nýja ekki samning sinn við Mick sem var að ljúka við sitt annað tíma­bil í móta­röðinni. Þess í stað tók liðið þá á­kvörðun að semja við reynslu­meiri öku­mann, sam­landa Schumacher, Nico Hul­ken­berg.

Mick ók í sinni síðustu For­múlu 1 keppni í bili um ný­liðna helgi í Abu Dhabi kapp­akstrinum.

„Tíma­bilinu 2022 er nú lokið og þar með einnig á­kveðnum kafla í lífi mínu," skrifar Mick í færslu á sam­fé­lags­miðlum þar sem hann þakkar liðinu og stuðnings­mönnum fyrir sig.

Mick segist ekki vita hvað muni nú taka við en þessi ungi Þjóð­verji er sonur sjö­falda For­múlu 1 heims­meistarans Michael Schumacher.

„Ég veit bara að ég mun leggja harðar að mér en nokkru sinni áður til að koma til baka sterkari og verða besta út­gáfan af sjálfum mér.“

Ljóst er að Mick mun ekki fá sæti sem aðal­öku­maður í For­múlu 1 á næsta ári, búið er að ráða í öll öku­manns­sætin. Hins vegar gætu dyr hafa opnast hjá Mercedes, liðinu sem faðir Micks skapaði sér gott orð­spor hjá.

Mick gæti því snúið til baka í For­múlu 1 á næsta tíma­bili, sem vara- eða þróuna­röku­maður.