Sautján milljónir sóttu um miða á lokakeppni Heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu sem fer fram í Katar á þessu ári.

Fyrsti miðasöluglugginn lokaðist í vikunni þar sem hægt var að skrá sig í happdrætti um miða á einstaka leiki eða að fylgja ákveðnu liði yfir mótið.

Að sögn FIFA komu flestar umsóknirnar frá heimamönnum í Katar.

Þá bárust margar umsóknir frá Argentínu, Bandaríkjunum, Brasilíu, Englandi, Frakklandi, Indlandi, Mexíkó, Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Alls bárust 1,8 milljónir umsókna um miða á úrslitaleikinn sem fer fram á Lusail vellinum sem tekur 80 þúsund manns.

Tilkynnt verður þann 8. mars næstkomandi hvort að einstaklingar sem sóttu um miða hafi fengið miða eða ekki.