Landsliðsþjálfarinn var gestur í Kastljósi í gærkvöldi þar sem hann var spurður út í þessar nýjustu vendingar, þar sem leikmenn og þjálfara þátttökuliða HM munu þurfa að fara í skimun fyrir Covid-19 veirunni reglulega í gegnum HM.
,,Ég verð að játa það að ég saup hveljur þegar að ég heyrði þetta og ég hef verulegar áhyggjur af þessu," sagði Guðmundur í Kastljósi. ,,Ég hef reynt að hugsa ekki of mikið um þetta en við verðum settir í Covid-19 próf rétt eftir helgi, úti í Þýskalandi og það getur auðvitað allt gerst þar."
Íslenska landsliðið leikur tvo æfingaleiki gegn Þjóðverjum úti í Þýskalandi um komandi helgi og það hvernig menn ætla sér að mæla möguleg Covid-19 smit, segist Guðmundur ekki vita.
,,Og hvað getur komið út úr því er ómögulegt að segja. Ef það kemur eitthvað upp þá fer viðkomandi einstaklingur, hvort sem það er leikmaður eða meðlimur þjálfarateymisins, í fimm daga sóttkví."
Guðmundur segist ekki skilja þessa ákvörðun Alþjóða handknattleikssambandsins.
,,Það er hvergi, hjá nokkru einasta sérsambandi í heiminum, verið að ræða Covid-19. Þess vegna er þetta furðuleg ráðstöfun svo ekki sé meira sagt.
Landsliðið sé öllu vant í þessum efnum.
,,En þetta er að mínu mati algjör óþarfi og kemur á undarlegum tímapunkti."
Fyrsti leikur Íslands á HM fer fram þann 12. janúar næstkomandi, eftir rúma viku. Þar verður andstæðingurinn landslið Portúgals en auk þeirra er Ísland í riðli með Ungverjalandi og Suður-Kóreu.
Riðill Íslands verður spilaður í Kristianstad í Svíþjóð og liðin sem enda í efstu þremur sætum riðilsins komast áfram í milliriðla.