Kjartan Atli Kjartansson var gestur í íþróttavikunni með Benna Bó sem er á dagskrár Hringbrautar alla föstudaga ásamt Herði Snævari Jónssyni, íþróttastjóra Torgs. Kjartan er umsjónarmaður Körfuboltakvölds á Stöð2 sport en þeir félagar hafa haft næg verkefni undanfarnar vikur og skilað sínu heim í stofur landsmanna með prýði.

Að sjálfsögðu var byrjað að ræða nýliðið einvígi Vals og Tindastóls þar sem Valsmenn hrósuðu sigri og fögnuðu sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli síðan 1983.

Uppgangur körfuboltans á Íslandi hefur verið mikill enda mikið púður sett í hverja útsendingu. Kjartan benti á að þeir hefðu verið á hliðarlínunni síðan 2015 og stækkað jafnt og þétt. „Það er heillandi fyrir okkur íþróttanördana hvort sem það er hand- fót- eða körfubolti eða hvaða íþrótt sem er ef íþróttamenn eða lið eru með bakið upp við vegg. Ef það er verið að fara í sumarfrí eða ekki. Það er sem mér finnst heillandi við íþróttir. Annaðhvort vinnur þú eða bless bless. Það er sem úrslitakeppnin kemur með. Vonandi fáum við það í fótboltanum í haust. Að lokaumferðirnar verði akkúrat svona,“ segir hann.

Hávaðinn í Valsheimilinu var nánast yfirgengilegur á köflum. Kjartan var spurður hvernig gengi að heyra í viðmælendum sínum sem og útsendingarbílnum. „Það sem gerist er að öll trommuhljóð og lúðrahljóð fer upp og þetta ómar í höfðinu á manni. Á leiknum vorum við með klukkutíma prógramm fyrir og eftir leik og þegar ég kom heim ómaði allt í höfðinu á mér. Ég sat í þögn í klukkutíma - aðeins til að slaka á.“

Hann segir að hann hafi farið yfir einvígið í þögninni og úrslitakeppnina alla. „Ég veit að þegar ég hætti í fjölmiðlamennsku einhvern tímann þá mun maður horfa til baka og vera þakklátur að hafa upplifað þetta. Allir stuðningsmenn stóðu sig vel en að hafa fengið að upplifa þessa stemningu á Sauðárkróki alla úrslitakeppnina. Það er stundum sagt hvernig leikdagsupplifunin á að vera og ég benti á í Körfuboltakvöldi að sú ráðgáta var leyst á Króknum. Það voru tjöld fyrir utan og þar sat fólk og það voru trúbadorar og þá fattar maður að þetta snýst ekki um að fá einhvern töframann til að skemmta. Þetta snýst um að fólkið komi og sé saman og hafi einhverja einhverja ástæðu til að setjast niður. Maður er manns gaman. Þarna kom fólk og gerði allt fyrir klúbbinn sinn.

Ég sá mann í röð og var að kaupa sér tvo kristala á einhvern 700 kall en borgaði með fimm þúsund króna seðli. Sagði að Tindastóll mætti eiga rest. Stuðningsmenn Stólana eru svona.“

Hörður segir að fólk sé farið mæta snemma. Allt sem búi til meiri upplifun. „Fólkið sem upplifði oddaleikinn mun koma aftur og jafnvel taka einhvern með sér.“

Það vakti athygli að stuðningsmenn tóku til eftir sig. Afskaplega lítið rusl var skilið eftir. „Krakkar í dag eru meðvitaðir en við vorum. Það er ekkert meira 90´s en að henda rusli út um gluggann. Það sést ekki í dag sem betur fer. Líka sem spilar inní. Það tekur einhver eftir sig og setur á samfélagsmiðla og þetta spyrst út og verður eftirsóknarvert. Þú sérð þessi íþróttalið sem ganga frá eftir sig. Þú vilt að þetta sé þitt orðspor. Þar sjást kannski jákvæðar hliðar samfélagsmiðla. Að hampa fólki fyrir rétta hegðun.“

Stöð 2 sport var með hið minnsta 14 myndavélar á leiknum. „Besti staðurinn til að horfa á körfuboltaleiki er útsendingarbíllinn. Það eru kannski 50 skjáir og þú sérð allt. Karfan er bandarísk íþrótt og það er auðvelt að apa eftir því sem er í gangi þar því þeir eru framarlega í þessum efnum.“

Nánari umræðu má sjá hér fyrir neðan.