Það er ekki hægt að segja annað en að knattspyrnufélagið Sharjah FC sem spilar í efstu deild í Sameinuðu-Arabísku furstadæmunum hafi farið fremur óhefðbundna leið þegar kom að því að kynna nýjasta leikmann félagsins, varnarmanninn Kostas Manolas sem hefur áður verið á mála hjá stórliðum á borð við Lazio og Roma.

Forráðamenn félagsins vildu gera óhefðbundið myndband þar sem Manolas yrði kynntur til sögunnar og því var brugðið á þá það ráð að láta hann stilla sér upp við hlið ljóns.

Ljóst var að Manolas stóð ekki á sama þegar þessi hugmynd var kynnt fyrir honum og nú hefur myndband farið í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem sjá má ljónið og Manolas saman í stúdíói.

Hins vegar er það ekki kynningarmyndbandið sjálft sem hefur farið eins og eldur um sinu um samfélagsmiðla heldur myndband af því þegar ljónið urrar í tökum við litla hrifningu mnolas.