Sara Björk Gunnarsdóttir er ein þriggja sem koma til greina sem miðjumaður ársins í Meistaradeild Evrópu á síðasta tímabili.

Sara varð fyrr í sumar fyrsti Íslendingurinn til að skora í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu og um leið annar Íslendingurinn sem vinnur keppnina.

UEFA tilkynnti í dag hvaða leikmenn koma til greina sem markmaður ársins, varnarmaður ársins, miðjumaður ársins og sóknarmaður ársins.

Hafnfirðingurinn Sara er ein af sex leikmönnum úr herbúðum Lyon ásamt Sarah Bouhaddi, Lucy Bronze, Wendie Renard, Dzsenifer Marozsán og Delphine Cascarino.

Þrír fyrrum liðsfélagar Söru hjá Wolfsburg, Lena Goessling, Alex Popp og Pernille Harder eru einnig tilnefndar.

Þá eru Christine Endler frá PSG, Sandra Paños frá Barcelona og Vivianne Miedema frá Arsenal tilnefndar.