„Fyrstu tilfinningar eru að maður er smá svekktur. Maður hefði viljað fá þrjú stig í þessum leik, en það jákvæða er að við erum ekki búnar að tapa á mótinu. Við erum búnar að skora og við þurfum bara að klára þetta sem er eftir,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, aðspurð hvernig tilfinningin væri eftir 1-1 jafntefli Íslands og Ítalíu í kvöld.

„Ég er sátt með frammistöðuna og framlagið, það er alltaf eitthvað sem hægt er að bæta. Maður fer í þessa leiki og gefur allt. Stundum er það nóg, stundum ekki.“

Sara býst við erfiðum leik gegn Frökkum á mánudaginn en það gæti farið svo að Frakkar verði búnar að tryggja sér sigur í riðlinum.

„Þetta verður erfiður leikur, við vitum það. Ég veit ekki hvort að hausinn þeirra verður kominn aðeins lengra, við vonum það, en þær eru með breidd ef þær ætla að skipta einhverju líka,“ segir Sara og heldur áfram:

„Þetta verður erfiðasti leikurinn, held ég, í riðlinum, en það gæti líka verið að við eigum okkar besta dag. Fáum meðbyr, færin og nýtum föst leikatriðin sem eru styrkleiki okkar til að vinna þær. Við þurfum að hafa trú á því.“