Ísland sótti dýrmæt þrjú stig þegar liðið lék við Slóvaka í næstsíðustu umferð í undankeppni EM 2022 í knattspyrnu kvenna í Bratislava í gærkvöldi. Það blés reyndar ekki byrlega fyrir íslenska liðinu í fyrri hálfleik en Slóvakar komust sanngjarnt yfir um miðbik fyrri hálfleiks.

Lítið gekk í uppspili íslenska liðsins framan af leik og pressa liðsins var máttlaus allan fyrri hálfleikinn. Smá líf færðist í leikmenn Íslands undir lok fyrri hálfleiks og Ingibjörg Sigurðardóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir gerðu sig þá líklegar fyrir framan slóvakíska markið.

Þar er svo ljóst að Jón Þór Hauksson náði að kveikja vel í liðinu með hálfleiksræðu sinni en það var allt annað að sjá íslenska liðið í seinni hálfleik. Það var mun meira skipulag og ákefð í hápressu liðsins auk þess sem sóknaruppbyggingin var mikið markvissari. Góð byrjun íslenska liðsins á upphafsmínútum seinni hálfleiks var reyndar trufluð þegar rafmagnið sló út á vellinum í Bratislava.

Það sló hins vegar ekki leikmenn Íslands út af laginu og Berglind Björg Þorvaldsdóttir, sem hóf leikinn með Elínu Mettu Jensen í framlínu íslenska liðsins, jafnaði metin eftir klukkutíma leik. Agla María Albertsdóttir, sem var einn þeirra leikmanna sem vöknuðu hressilega til lífsins í hálfleik, sendi þá góða sendingu á Sveindísi Jane en hún renndi boltanum á Berglindi Björgu sem skoraði.

Sara Björk Gunnarsdóttir sá svo til þess að Ísland færi með sigur af hólmi með tveimur mörkum úr vítaspyrnum. Sara Björk náði í fyrra vítið sjálf og Elín Metta það síðara. Eftir mörkin hjá fyrirliðanum var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda og íslenska liðið hefði hæglega getað bætt fleiri mörkum við.

Með þessum tveimur mörkum er Sara Björk orðinn fimmta markahæsta landsliðskonan í sögunni með 22 mörk. Hún varð leikjahæsti leikmaðurinn í sögunni í tapleiknum gegn Svíþjóð á dögunum en Sara tók það met af Katrínu Jónsdóttur. Landsliðsfyrirliðinn skaust svo upp fyrir Katrínu á listanum yfir markahæstu leikmenn sögunnar með mörkunum tveimur í gær. Nú vantar Söru eitt mark til þess að komast upp að hlið Ásthildar Helgadóttur í fjórða sæti á þeim lista og sjö mörk til þess að jafna Dagnýju Brynjarsdóttur sem er í þriðja sæti á listanum. Hún á þó enn langt í markametið sem er í eigu Margrétar Láru Viðarsdóttur sem skoraði 79 mörk fyrir landsliðið.

Þessi sigur geirneglir það að Ísland mun enda í öðru sæti í riðli sínum en liðið hefur 16 stig fyrir lokaumferð riðlakeppninnar þar sem íslenska liðið er sex stigum á undan Slóvakíu fyrir lokaumferðina. Fyrir leikinn átti Slóvakía veika von um að stela sætinu af Íslandi og virtist sá draumur ætla að lifa þar til íslenska liðið vaknaði til lífsins í Bratislava í gær og gerði út um vonir Slóvaka.

Ísland mætir Ungverjalandi í lokaumferðinni í Búdapest á þriðjudaginn kemur. Það kemur í ljós eftir þann leik hvort annað sætið fleytir íslenska liðinu beint í lokakeppni Evrópumótsins sem leikin verður í Englandi eða liðið þurfi að fara í umspil um laust sæti á mótinu. Það veltur bæði á úrslitum í leik Íslands og Ungverjalands sem og hvernig leikir fari í öðrum riðlum undankeppninnar.

Misjafnt er hversu margar umferðir hafa verið leiknar í riðlunum níu í undankeppninni og því erfitt að lesa í stöðuna fyrir lokaumferðina eins og sakir standa. Þau þrjú lið með bestan árangur í öðru sæti í riðlunum níu í undankeppninni fá farseðil beint til Englands á meðan hin liðin sex sem hafna í öðru sæti fara í umspil um síðustu þrjú sætin á mótinu. Einn af leikjunum sem fylgjast þarf með er leikur Frakklands og Austurríki í dag en línurnar ættu að skýrast eftir leik Íslands á þriðjudaginn. Sama dag mætast Ítalía og Danmörk annars vegar og Sviss og Belgía hinsvegar sem eru í baráttu við Ísland um stigahæsta liðið í öðru sæti undankeppninnar.