Keflvíkingurinn Sara Rún Hinriksdóttir var valin besti leikmaður úrslitaleiksins þegar lið hennar, Leicester Riders hafði betur gegn Durham Palatinates í úrslitum bresku bikarkeppninnar í körfubolta. Sara var stigahæst í liði Leicester með 23 stig ásamt því að taka niður sjö fráköst.

Sara sem verður 24 ára síðar á þessu ári er á fyrsta tímabili sínu hjá Leicester eftir að hafa áður leikið með Canisius skólanum í New York ríki. Hún hefur leikið með Keflavík á Íslandi og var valin besti ungi leikmaðurinn á Íslandsmótinu árið 2013 og 2015.

Tíu stig í röð frá Söru undir lok fyrri hálfleiks gerðu það að verkum að Leicester leiddi með tólf stigum um tíma en Durham gafst ekki upp og hélt sér inni í leiknum allt til loka hans.

Leicester er í baráttu um heimavallarrétt í úrslitakeppninni í bresku deildinni en líklegt er að deildin fari nú í hlé á meðan kórónaveirufaraldurinn geisar.