Þetta er annað árið í röð sem Sara Rún er valin körfuknattleikskona ársins. Hún er uppalin með Keflavík lék á síðustu leiktíð með Haukum og átti mjög gott tímabil sem endaði með því að hún var valin Besti leikmaður deildarinnar á lokahófi KKÍ. Sara Rún lék með landsliðinu í febrúar 2021 í landsliðsglugganum sem fram fór í Slóveníu og var ein af lykilmönnum íslenska liðsins líkt og að undanförnu. Fyrir þetta tímabil gerði hún nýjan samning við lið Phoenix Constanta í Rúmeníu og leikur því sem atvinnumaður þar í vetur.

,,Sara Rún hefur átt góða byrjun þar, er með 14 stig að meðatali eftir níu leiki og er á topplista yfir deildina í stigaskori og er meðal leiðtoga í flest öllum tölfræðiþáttum í sínu liði. Landsliðið lék að tvo landsleiki í nóvember í nýrri undankeppni EM kvenna 2023 og þar var Sara Rún öflug og leiðir liðið í stigaskorun. Sara Rún hefur verið að sýna mikla framför í sínum leik og verið að taka sér leiðtogahlutverk með landsliðinu og því ljóst að á næstu árum verður hún áfram ein af mikilvægustu leikmönnum landsliðsins," segir í yfirlýsingu KKÍ.

Elvar Már Friðriksson, leikmaður Antverp Giants í Belgíu er að hljóta nafnbótina Körfuknattleiksmaður ársins í fyrsta sinn. ,,Elvar Már átti frábært ár í fyrra þegar hann lék heilt tímabil með BC Siauliai í efstu deild í Litháen. Elvar Már átti hvern frábæra leikinn af öðrum fyrir sitt lið en liðið átti brösugt upphaf á tímabilinu þrátt fyrir það. Elvar átti í kjölfarið stóran hlut í velgengni liðsins þegar á leið því liðið fór á fleygiferð og fór upp úr neðri hlutanum og alla leið inn í úrslitakeppnina með því að enda í 7. sæti, einum leik frá 5. sætinu. Elvar Már var með frábæra tölfræði og framlag til liðsins og var á endanum valinn „MVP - Leikmaður ársins“ í litháensku deildinni og varð hann þar með aðeins fimmti erlendi leikmaðurinn í sögu þessarar miklu körfuknattleiksþjóðar til að hljóta þá viðurkenningu í karladeildinni. Elvar Már gerði í kjölfarið samning við Antwerp Giants í Belgíu sem hefur verið eitt af stóru liðunum þar í landi og leikur með þeim þar í landi og í FIBA EuroCup í vetur. ," segir í yfirlýsingu KKÍ.

,,Með íslenska landsliðinu tók Elvar Már þátt í öllum leikjum liðsins, bæði í febrúar, sumar og í haust og var meðal bestu manna liðsins í hvert sinn. Hann átti mjög góða leiki fyrir Ísland á fyrri hluta ársins og var stór þáttur í því afreki landsliðsins að tryggja sér sæti í riðlakeppninni í undankeppni HM sem nú fer fram," segir í yfirlýsingu KKÍ um valið á Körfuknattleiksfólki ársins 2021.

Körfuknattleikskona og karl ársins eru valin í kosningu af stjórn og starfsmönnum KKÍ, afreksnefnd KKÍ og landsliðsþjálfurum.