Sara Rún Hinriksdóttir var líkt og í leiknum gegn Slóvenum á föstudaginn var atkvæðamest hjá íslenska kvennalandsliðinu í körfubolta þegar liðið tapaði, 74-53, fyrir Búlgaríu í fjórðu umferð í undankeppni EM, EuroBasket Women’s 2021, Heraklion á Krít í Grikklandi dag.

Búlgarar hófu leikinn af miklum krafti og skotnýting íslenska liðsins var slök í fyrri hálfleik en 5 a 21 tveggja stiga skoti fór ofan og 1 af 13 þriggja stiga skotum. Nýtingin af vítalínunni var reyndar afbragðs góð en þar fóru átta af níu skotum niður. Staðan í hálfleik var 44-21 búlgarska liðinu í vil.

Sara Rún Hinriksdóttir tók að sér leiðtogahlutverkið í fjarveru lykilleikmanna íslenska liðsins.

Eftir erfiðan fyrri hálfleik kom Ísland sterkt inn í þriðja leikhlutann og endaði sá fjórðungur 17-16 fyrir íslenska liðinu. Áfram vildi boltinn ekki niður fyrir utan þriggja stiga línuna en tveggja stiga nýtingin batnaði, áfram gekk vel á vítalínunni og vörnin varð öflugri.

Búlgaría fór svo að lokum með 21 stigs sigur af hólmi og íslenska liðið fer stigalaust en reynslunni ríkari frá þessum landsliðsglugga. Margt hefur gengið á í undirbúningi fyrir þennan glugga og á meðan verkefninu hefur staðið og stór skörð höggvin þegar Helena Sverrisdóttir, Hildur Björg Kjartandsóttir og Sylvía Rún Hálfdánardóttir eru fjarri góðu gamni.

Þóra Kristín Jónsdóttir reynir hér þriggja stiga skot en hún skoraði átta stig í leiknum.

Sara Rún var stigahæst hjá íslenska liðinu með 31 stig en hún tók þar að auki átta fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Þóra Kristín Jónsdóttir skoraði átta stig, Dagbjört Dögg Karlsdóttir sex stig, Hallveig Jónsdóttir fimm stig og Bríet Sif Hinriksdóttir þrjú stig.

Liðsskipan Íslands var óbreytt frá fyrri leiknum í þessum landsliðsglugga og íslenska liðið var því þannig skipað í þessum leik: Bríet Sif Hinriksdóttir, Dagbjört Dögg Karlsdóttir, Eva Margrét Kristjánsdóttir, Guðbjörg Sverrisdóttir, Hallveig Jónsdóttir, Isabella Ósk Sigurðardóttir, Katla Rún Garðarsdóttir, Lovísa Björt Henningsdóttir,Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, Sara Rún Hinriksdóttir, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir ogÞóra Kristín Jónsdóttir. Anna Ingunn Svansdóttir var svo 13. leikmaður liðsins.

Benedikt Rúnar Guðmundsson, þjálfari íslenska liðsins, fer yfir málin í leikhléi.
Liðsmydn af íslenska liðinu sem tók þátt í leikjunum tveimur í Grikklandi.